Fótbolti

Þórunn lagði upp sigurmarkið þegar Santos vann LINAF-bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir er komin með tvö gull í Brasilíu.
Þórunn Helga Jónsdóttir er komin með tvö gull í Brasilíu. Mynd/Stefán

Þórunn Helga Jónsdóttir og félagar í Santos tryggðu sér í gær sigurinn í LINAF-keppninni með 2-1 sigri á Corinthians en þetta er keppni innan Sao Paolo fylkis á vegum knattspyrnusambands Brasilíu.

Þórunn Helga Jónsdóttir var í byrjunarliði Santos að venju og lagði meðal annars upp sigurmark Santos sem Ketlen skoraði með skalla efir fyrirgjöf Þórunnar. Santos hafði lent 0-1 undir í leiknum en náði að snúa leiknum sér í vil.

Santos-liðið vann alla 23 leiki sína í LINAF-keppninni og skoraði 164 mörk gegn aðeins 6. Liðið skoraði því 7,13 mörk að meðaltali í leik.

Þetta er annar titilinn sem Þórunn Helga vinnur með Santos en hún varð einnig bikarmeistari í desember. Það gæti fleiri titlar bæst í hópinn á næstunni því Santos er komið langt í Paulista-keppninni og er síðan að fara að hefja keppni í Suður-Ameríku-keppninni og brasilíska bikarnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×