Enski boltinn

Adebayor: Arsenal þurfti á peningunum að halda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor og Arsene Wenger ræða málin.
Emmanuel Adebayor og Arsene Wenger ræða málin. Mynd/AFP

Emmanuel Adebayor gekk í gær frá félagsskiptum sínum í Manchester City sem kaupir hann á 25 milljónir punda frá Arsenal. Adebayor fékk tíma til að hugsa sín mál en fór loksins í læknisskoðunina í gær. Tógó-maðurinn gerði fimm ára samning við City en hann er þriðji háklassa sóknarmaðurinn sem liðið kaupir í sumar.

„Manchester City verður orðið besta lið í heimi eftir nokkur ár og ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað," segir Adebayor sem óttast ekki samkeppnina í liðinu. „Ég er kominn hingað til að berjast fyrir mínu sæti í liðinu. Ég ætla að sýna það að ég elska þetta félag, að ég sé tilbúinn að berjast fyrir félagið og að ég ætla að hjálpa því að vinna titla," sagði Adebayor.

„Það erfitt að segja hver markmiðin okkar verða í vetur en það væri frábært að komast í hóp fjögurra bestu liðanna. Ég veit ekki hvort við getum unnið annaðhvort bikarinn en það er auðveldara að svara því í desember," segir Adebayor.

„Það er vissulega erfitt að yfirgefa Arsenal en svona er boltinn og félagið þurfti líka á peningunum að halda. Ég átti gott samtal við Arsene og fékk hans blessun fyrir að yfirgefa félagið," sagði Adebayor og bætti við.

„Ég er búinn að fara í gegnum ýmislegt hjá Arsenal, bæði góðar og slæmar stundir. Stuðningsmennirnir studdu alltaf vel við bakið á mér og þeir verða alltaf í hjarta mínu því ég elska Arsenal," sagði Adebayor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×