Fótbolti

Strachan mælir með McGhee sem eftirmanni sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark McGhee, stjóri Motherwell.
Mark McGhee, stjóri Motherwell. Mynd/GettyImages

Gordon Strachan hætti í gær sem stjóri skoska liðsins Celtic en þó ekki áður en hann hafði mælt með að Mark McGhee, stjóri Motherwell, myndi taka við af sér. Veðbankarnir segja þó að mestu líkurnar séu að Tony Mowbray, stjóri West Brom, taki við stjórninni á Celtic Park.

Celtic-liðinu tókst ekki að vinna skosku deildina fjórða árið í röð og Strachan ákvað að hætta með liðið en miklar líkur eru taldar á því að hann sé á leiðinni í ensku úrvalsdeildina á næsta tímabili.

Motherwell gaf eftir í vetur undir stjórn McGhee og náði ekki að fylgja eftir frábærum árangri sínum árið 2007-08 þegar liðið komst í Evrópukeppni. Áður en McGhee tók við Motherwell hafði hann stýrt Reading, Leicester City, Wolverhampton Wanderers, Millwall og Brighton & Hove Albion.

Bæði McGhee og Mowbray eru fyrrum leikmenn Celtic og það er því ljóst að líkt og með Strachan þá verði Celtic-hjartað á réttum stað hjá nýjum stjóra liðsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×