Fótbolti

Rangers skoskur meistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Rangers fagna marki í dag.
Leikmenn Rangers fagna marki í dag. Nordic Photos / Getty Images
Glasgow Rangers varð í dag skoskur meistari eftir 3-0 sigur á Dundee United á útivelli í dag.

Á sama tíma gerði Celtic markalaust jafntefli við Hearts. Rangers var því með fjögurra stiga forystu á Celtic í mótslok.

Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn á hægri kantinum hjá Hearts í dag. Hearts varð í þriðja sæti deildarinnar og keppir því í Evrópudeildinni á næstu leiktíð, rétt eins og Aberdeen sem varð í fjórða sæti.

Þetta var 52. meistaratitill Rangers frá upphafi en síðast varð liðið meistari árið 2005.

Barry Ferguson kom inn á sem varamaður hjá Rangers í dag og lék síðustu átján mínútur leiksins. Hann kastaði svo treyju sinni til áhorfenda í leikslok.

Ferguson var rekinn úr skoska landsliðinu fyrir agabrot eins og frægt er og var í kjölfarið settur í tveggja vikna straff hjá Rangers. Félagi hans, markvörðurinn Allan McGregor, var einnig á bekknum en hann hefur ekki spilað síðan í landsleik Skotlands gegn Hollandi í lok mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×