Enski boltinn

Ótrúlegur endasprettur Stoke tryggði stig gegn Villa

John Carew hefur eflaust haldið að hann væri búinn að tryggja Villa sigurinn þegar hann kom liðinu í 2-0 þegar ellefu mínutur voru til leiksloka
John Carew hefur eflaust haldið að hann væri búinn að tryggja Villa sigurinn þegar hann kom liðinu í 2-0 þegar ellefu mínutur voru til leiksloka AFP

Leikmenn Aston Villa fóru illa að ráði sínu í dag þegar þeir misstu niður tveggja marka forystu gegn Stoke City á heimavelli og urðu að sætta sig við 2-2 jafntefli.

Villa er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu og náði forystu skömmu fyrir hlé með marki frá Stilyan Petrov. Norðmaðurinn John Carew virtist svo hafa innsiglað sigurinn þegar hann kom Villa í 2-0 með laglegu marki eftir sendingu frá Petrov á 79. mínútu.

Baráttuglaðir Stoke-menn voru þó ekki hættir og náðu að stela stigi með frábærum endaspretti. Ryan Shawcross minnkaði muninn með skalla eftir sendingu frá James Beattie þegar þrjár mínútur voru eftir.

Það var svo Glenn Whelan sem var hetja Stoke þegar hann skoraði með þrumuskoti í uppbótartíma og tryggði sínum mönnum mikilvægt stig í botnbaráttunni.

Villa hefði getað styrkt stöðu sína verulega í fjórða sæti deildarinnar með sigri í dag, en liðið hefur 52 stig, þremur minna en Liverpool sem er í þriðja sætinu og sex stigum meira en Arsenal sem er í fimmta sætinu.

Stoke hefur 26 stig í næstneðsta sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Middlesbrough og Blackburn sem eru í 18. og 17. sætinu.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×