Körfubolti

„Erum búnir að sjá þetta milljón sinnum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar.
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Hulda Margrét

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, gat andað léttar eftir óþarflega nauman sigur sinna manna gegn Valsmönnum í kvöld.

Stjarnan náði mest 27 stiga forskoti í 3. leikhluta, en þurfti að verja forskotið undir lokin og vann að lokum nauman þriggja stiga sigur, 102-105. Baldur var sammála því að sigurinn hafi verið óþarflega naumur.

„Auðvitað finnst manni það, en svona er bara þessi körfubolti. Þú spilar vel og býrð til forystu og annað hvort leggst hitt liðið niður eða kemur til baka. Valsliðið kom til baka í kvöld. Það er bara eins og það er,“ sagði Baldur í leikslok.

Hann segir að sínir menn hafi spilað virkilega vel í um það bil 25 mínútur í kvöld.

„Við vorum bara þéttir varnarlega og Valsmenn áttu í vandræðum með að komast inn í eitthvað. Það var kannski þannig sem við stjórnuðum leiknum, með góðum varnarleik.“

„Svo bara breytist dýnamíkin í leiknum og þeir fara að skora rosalega mikið og þá verður þetta svona.“

Hann vildi þó ekki meina að hans menn hafi farið á taugum um leið og illa fór að ganga.

„Nei, það er bara svona sem þessi leikur er. Við erum búnir að sjá þetta milljón sinnum í körfubolta. Annað liðið leiðir og hitt liðið kemur til baka. Annað liðið sækir rosalega aggressívt, af því að aðstæðurnar eru þannig að það þarf að sækja, og hitt liðið verður passívt. Við munum sjá þetta milljón sinnum í viðbót.“

Að lokum segir hann að það sé ýmislegt sem hans menn geti tekið með sér úr þessum leik í kvöld í næsta leik, sem er gegn Grindavík í bikarnum.

„Við tökum með okkur varnarleikinn úr fyrri hálfleik, sem var frábær. Líka bara sóknarleikinn úr fyrri. Svo tökum við líka alls konar úr því þegar Valsmenn voru góðir og reynum að fikta eitthvað í því. Ákvarðanatöku og fleira til að ná að klára leiki með meiru en þremur stigum þegar við erum komnir 27 stigum yfir,“ sagði Baldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×