Daniel Cousin, leikmaður nýliða Hull í ensku úrvalsdeildinni, segir að félagið eigi hiklaust að stefna að koma því í UEFA-bikarkeppnina á næsta keppnistímabili.
„Ég held að við ættum að stefna á UEFA-bikarkeppnina. Af hverju ekki?" sagði Cousin sem skoraði eitt marka Hull er liðið tapaði fyrir Manchester United á Old Trafford um helgina, 4-3. Hann skoraði einnig sigurmark Hull gegn Arsenal fyrr á tímabilinu.
„Það var vissulega frábært en það er mikilvægt að dvelja ekki of lengi við einn leik og halda áfram að standa sig vel," sagði Cousin.
Þó svo að Hull hafi tapað síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni, fyrir Chelsea og United, er liðið í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig.