Fótbolti

Adriano á möguleika á landsliðssæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adriano í leik með Sao Paulo.
Adriano í leik með Sao Paulo. Nordic Photos / AFP

Svo gæti farið að Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, velji sóknarmanninn Adriano í landsliðshópinn sinn.

Adriano hefur átt mjög erfitt uppdráttar undanfarin misseri en hann er nú samningsbundinn Inter á Ítalíu. Hann fékk að fara aftur til heimalands síns í lok síðasta árs þar sem hann fékk að ráða fram úr sínum málum.

Í kjölfarið fékk hann í gegn sex mánaða lánssamning við Sao Paulo og þar hefur hann verið öflugur og skorað ellefu mörk á tímabilinu.

„Hann hefur bætt sig mikið með Sao Paulo," sagði Dunga. „Hann átti í erfiðleikum til að byrja með en hann er aftur orðinn að gamla Adri sem við þekkjum öll."

„Hann býr mikið í honum ef hann nær að komast í sitt besta form því hann er sterkur leikmaður sem skorar mörk."

Adriano hefur ekki leikið með brasilíska landsliðinu í rúmt ár en hefur alls skorað 27 mörk í 41 landsleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×