Innlent

Falsaðir Ferrari seljast sem ósviknir væru

Hann er rennilegur þessi en tengist þó ekki fréttinni beint.
Hann er rennilegur þessi en tengist þó ekki fréttinni beint.

Falsaðar Ferrari-bifreiðir sem lögreglan á Ítalíu lagði hald á fyrr á árinu þegar lagt var til atlögu við hóp bifreiðafalsara þykja svo vel úr garði gerðar að áhugamenn um Ferrari hafa keypt 14 af 21 bifreið sem hald var lagt á. Falsaðan Ferrari 328 GTB má fá fyrir litlar 2,2 milljónir króna sem er um fjórðungur af því sem ófalsað eintak af bifreiðinni kostar á Ítalíu.

„Það er engin leið að sjá að um fölsun er að ræða fyrr en bíllinn er grandskoðaður," sagði Cesare Constantini, Ferrari-áhugamaður sem hefur marga fjöruna sopið. Stórstígar tækniframfarir hafa komið því til leiðar að góðir verkmenn geta falsað flóknustu hluti svo vel að sérfræðinga þarf til að þekkja mun á falsaðri og ófalsaðri vöru og eru bifreiðar þar engin undantekning. Ferrari-bifreiðirnar eru þó ekki fullkomlega falsaðar nema að utan, þeir sem til þekkja segja að innréttingin komi þegar upp um fölsunina og síðast en ekki síst eru vélar bifreiðanna langt frá því að vera ósviknar.

Kaupendur setja slíkt þó ekki endilega fyrir sig enda hermir tollatölfræði innan Evrópusambandsins að umferð hvers kyns falsaðs varnings hafi aukist um 1.000% milli 1998 og 2004 og nú mun það ekki lengur vera eingöngu fólk sem hefur ekki efni á ósviknum vörum sem kaupir falsvarninginn, þeir efnuðu kaupa hann líka. Þau tuttugu ára gömlu rök lögmætra framleiðenda, að kaupendur falsvarnings hefðu hvort eð er ekki efni á ósviknu vörunum og framleiðendur yrðu þar af leiðandi ekki fyrir neinu tjóni, hafa því elst illa. CNN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×