Innlent

Segja trúverðugleika Samfylkingar í umhverfismála hafa beðið hnekki

Náttúruverndarsamtök Íslands segja að trúverðugleiki Samfylkingarinnar í umhverfismálum hafi beðið verulegan hnekki með ákvörðun umhverfisráðherra varðandi álver í Helguvík í gær.

Þar staðfesti ráðherra ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat vegna álversins og hafnaði þeirri kröfu Landverndar að álverið og tengdar framkvæmdar færu í heildstætt umhverfismat.

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum er vitnað til orða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi fyrir ári. Þar sagði hún: „Ég sagði, virðulegur forseti, að það væri mikilvægt að taka í taumanna og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta og tekið raunverulega í taumanna þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar á eru næstu árum og þar vísa ég auðvitað til áformana um stækkun álversins i Straumsvík og álver í Helguvík."

Náttúruverndarsamtökin segja þessi orð hafa reynst innantóm. Þá sé hætt við að orð Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra um breytingar á stjórnarskrá og lögum til að styrkja náttúruvernd í landinu reynist einnig innistæðulaus því að í Helguvíkurmálinu hafi hún ekki notið stuðnings samráðherra sinna í Samfylkingunni og enn síður frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Eftir standi að trúverðugleiki Samfylkingarinnar í umhverfismálum hefur beðið verulega hnekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×