Innlent

Boðar átak í verðkönnunum

Á fundi sem viðskiptaráðherra og stjórnvöld boðuðu til í hádeginu í dag var gengið til samstarfs við Alþýðusamband íslands, Neytendasamtökin og Neytendastofu um að leita leiða til að vinna gegn verðhækkunum og draga úr þeirri verðlagsþróun sem nú stefnir í.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að samstarf af þessu tagi geti leitt af sér mikinn efnivið. Ákveðið hafi verið að gera átak í verðkönnunum til að fylgjast betur með þróun á verði neysluvara.

Ýmsar aðrar leiðir voru ræddar á fundinum, svo sem lækkun tolla og vörugjalda.

Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna segir að endurskoða þurfi, og helst afnema, vörugjöld á almennum neysluvarningi og lækka tolla. Hann telur að fjölmörg heimili í landinu muni annars kikna undan ástandinu.

Grétar Þorsteinsson hjá ASÍ segir boðaðar vöruhækkanir upp á 20-30 prósent vöruhækkanir í matvöru eftir mánaðarmótin óásættanlegar. Engar forsendur geti verið fyrir svo miklum hækkunum. Kjarasamningar hefðu verið gerðir nýlega með það að markmiði stuðla að stöðguleika, lækka verðlag og verðbólgu. Forsvarsmenn sambandsins hefðu ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér að mál myndu þróast eins og þau hafa gert síðustu vikur. Viðbrögð í samfélaginu séu einnig mikið áhyggjuefni.

Ráðherra fagnar yfirlýsingu framkvæmdastjóra Ikea um að verslunin muni ekki hækka verð þó krónan hafi lækkað. Hann skorar á forystumenn verslunar að gera slíkt hið sama þannig að allir taki á sig tímabundnar hækkanir. Mestu skipti að draga úr verðbólgu og koma í veg fyrir hækkanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×