Innlent

Vilja reglur eða frumvarp um skipan í opinber embætti

Árniu Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, er meðal flutningsmanna frumvarpsins.
Árniu Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, er meðal flutningsmanna frumvarpsins. MYND/GVA

Fimm þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að forsætisráðherra verið falið að skipa nefnd sem á að móta reglur og jafnvel semja frumvarp um verkferla og meðferð faglegs hæfnismats við skipan í opinber embætti.

Á nefndin að kanna hvort faglegar hæfnismatsnefndir fái víðara verksvið og veiti umsagnir um fleiri embætti en nú gildir. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að opinberar stöðuveitingar hafi oft vakið harðar deilur og verið kærðar til umboðsmanns Alþings eða kærunefndar jafnréttismála.

Þar hafi komið fram að geðþótti eða eigið mat einstakra ráðherra hafi verið látið ráða en sú staða samrýmist ekki hörðum kröfum til opinberrar stjórnsýslu. „Það er mikilvægt að almenningur beri traust til stjórnsýslunnar og geti reitt sig á að stjórnvaldsákvarðanir eins og opinberar stöðuveitingar standist skoðun þannig að umsækjendur um opinbert starf geti gengið út frá því sem vísu að þeir séu metnir á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og þeirra krafna sem gerðar eru til viðkomandi starfs og auglýstar hafa verið," segir í greinargerðinni.

Þar segir enn fremur að embætti í dómskerfinu séu sérstaklega mikilvæg í þessu tilliti enda dómsvaldið eitt af grunnstoðum þrískiptingar ríkisvaldsins. Enginn vafi megi leika á um hlutleysi dómstóla eða á því að dómarar séu valdir til starfa á faglegum forsendum eingöngu.

„Því er ástæða til að nefndin skoði sérstaklega hvernig skipan dómara í embætti verði best háttað þannig að hún verði ekki tortryggð heldur þvert á móti auki traust almennings á dómskerfinu," segja tillöguhöfundar.

Vísað er til hæfnisnefnda sem fjallar um hæfni dómara og háskólamanna og sagt að hlutverk slíkra hæfnisnefnda megi ekki vera neinum vafa undirorpið, né heldur þýðing þess mats sem þær vinna og að hve miklu leyti veitingavaldshafinn er bundinn af áliti matsnefnda. „Enn fremur er full ástæða til að skoða hvort slíkar hæfnisnefndir eigi við í fleiri tilvikum en nú er," segir í greinargerðinni.

Leggja tillöguhöfundar til að forsætisráðherra skipi nefnd með með þátttöku allra þingflokka sem á að fjalla um þessi mál. Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum fyrir þingsetningu næstkomandi haust svo að nýjar reglur og eftir atvikum ný lög geti tekið gildi í byrjun árs 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×