Innlent

Met í heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu

Met var slegið í heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu um hádegisbil í gær. Fólk er nú fara að skrúfa fyrir þar sem hlýnað hefur í veðri. Notkunin fór að aukast um miðja síðustu viku þegar verulega fór að kólna í veðri.

Hámarki náði rennsli vatnsins um hádegisbil í gær en þá nam það 15.700 tonnum á klukkustund. Það hafði þó ekki mikil áhrif á þrýstinginn í lögnum höfuðborgarsvæðisins ef frá eru taldar lagnir í Hafnarfirði. Sundlaug bæjarins, Suðurbæjarlaug, hefur verið lokuð frá því á föstudag þar sem lagnirnar í bænum þoldu ekki meiri þrýsting.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur sagði í samtali við fréttastofu í morgun að dregið hefði úr heitavatnsnotkun síðan í gær enda hefur hlýnað verulega í veðri. Hann sagði að byrjað yrði að keyra Suðurbæjarlaug upp í dag og stefnt væri að því að opna hana aftur á morgun. Skýringin á því að loka þurfti lauginni væri sú að enn væru lagnir í Hafnarfirði sem ætti eftir að svera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×