Enski boltinn

Ramos vill breyta hugarfarinu hjá Spurs

Juande Ramos vill rífa Tottenham upp úr meðalmennskunni
Juande Ramos vill rífa Tottenham upp úr meðalmennskunni Nordic Photos / Getty Images

Knattspyrnustjórinn Juande Ramos vann sér stóran sess í hjörtum stuðningsmanna Tottenham í gær þegar hann varð fyrsti stjórinn á öldinni til að stýra liðinu til sigurs gegn erkifjendunum í Arsenal.

Tottenham sló granna sína út úr bikarkeppninni með 5-1 sigri á heimavelli og var þetta stærsti sigur Tottenham á Arsenal í meira en tvo áratugi.

Ramos segir eitt ákveðið verkefni hafa forgang hjá félaginu og það sé að breyta hugarfarinu.

"Fyrsta skammtímaverkefnið sem beið okkar var að koma liðinu upp úr fallbaráttunni, því það var komið í vond mál í deildinni þegar við tókum við. Við höfum nú um það bil hálft tímabil til að klífa töfluna og ætlum okkur stóra hluti í bikarkeppnunum. Þetta eru skammtímaplönin okkar," sagði Ramos.

Þegar kemur að langtímamarkmiðum klúbbsins, hefur Ramos skýra stefnu.

"Mér finnst félag eins og Tottenham hafa gríðarlega möguleika á að gera góða hluti og það var ástæðan fyrir því að ég ákvað að koma hingað. Hver einasti maður í félaginu þarf hinsvegar að sannfæra sjálfan sig um að við eigum meira skilið."

"Við verðum að hafa metnað og segja við sjálfa okkur að við þurfum að taka næsta skref. Félagið hefur allt sem til þarf til að fara lengra og þegar við erum búnir að troða þessu hugarfari inn hjá öllum - er hægt að fara að skoða framtíðina og setja langtímamarkmið," sagði Ramos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×