Innlent

Fischer vildi hvíla í íslenskri sveit

Skákmeistarinn Bobby Fischer var jarðsettur í kyrrþey í sveitakirkjugarði að Laugardælum við Selfoss í morgun. Auk kaþólsks prests, sem jarðsöng, voru aðeins fimm manns við athöfnina, þeirra á meðal ekkja Fischers.

Þetta er gröf Bobby Fischers. Garðar Sverrisson, nánasti vinur hans á Íslandi, staðfesti í samtali við Stöð 2 nú síðdegis að Fischer hefði verið jarðsettur með kyrrþey í íslenskri sveit, samkvæmt hans eigin ósk. Komið var með kistu hans í kirkjuna að Laugardælum í morgun en þar hófst athöfnin klukkan hálftíu. Séra Jakob Rolland, prestur kaþólskra, jarðsöng. Miyoko Watai, ekkja Fischer, var viðstödd, en hún kom til landsins í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 voru þau gift en höfðu kosið að halda því leyndu. Garðar Sverrisson, vinur Fischers, var einnig við athöfnina sem og þrír aðrir Íslendingar. Svo leynt fór athöfnin að sóknarprestur Laugardælasóknar, Kristinn Ágúst Friðfinnsson, hafði ekki hugmynd um hana.

Að Laugardælum býr Þórarinn Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður, en hann er tengdafaðir Garðars Sverrissonar. Haraldur, sonur Þórarins, og mágur Garðars Sverrissonar, segir að Fischer hafi nokkrum sinnum komið að Laugardælum með Garðari. Laugardælir eru á bökkum Ölfusár, vatnsmesta fljóts Íslands, og blasir Ingólfsfjall við. Ekki vannst tími til að smíða kross og merkja leiðið fyrir útförina en bætt verður úr því á næstu dögum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.