Innlent

Ásmundur tekur við kjaradeilu

Kjaradeilu stærstu launaþegasamtaka landsins var vísað til ríkissáttasemjara í morgun. Verkalýðsforingjar segja að kveikiþráðurinn sé orðinn stuttur og að ekki verði beðið lengi með auknar þrýstiaðgerðir á atvinnurekendur.

Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari var kallaður til verka þegar við upphaf samningafundar í morgun með sérstakri yfirlýsingu, sem Sigurður Bessason, formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins svonefnda, las upp og afhenti Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, þess efnis að verkalýðsfélög við Faxaflóa hefðu vísað kjaradeilu sinni til sáttasemjara. Starfsgreinasambandið, sem er í samfloti, gerir það sama eftir hádegi.

Þar með hefur ríkissáttasemjari tekið við stjórn viðræðna um kaup og kjör fyrir um fjörutíu þúsund manns. Þetta er langfjölmennasti hópurinn sem samið er fyrir og má telja líklegt að niðurstaðan við þetta borð leggi línuna fyrir aðra kjarasamninga í landinu.

Eftir að hafa rætt um sérliði undanfarnar vikur ætla menn nú að vinda sér beint í launaliðina. Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að kveikiþráðurinn sé orðinn stuttur og ekki verði beðið lengi með að setja aukinn þrýsting, komi ekkert frá atvinnurekendum.

Vilhjálmur Egilsson, talsmaður atvinnurekenda, er hins vegar pollrólegur, og segir að ekki verði staðið upp frá borðum fyrr en menn sjái eitthvað jákvætt framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×