Innlent

Afskrá fjögur ökutæki á klukkustund

MYND/GVA

Nærri átta þúsund úrsérgengnum ökutækjum var skila til úrvinnslu á síðasta ári sem er svipaður fjöldi og árin tvö þar á undan. Samtals voru ökutækin rúmlega 24 þúsund á þremur árum og samkvæmt tilkynningu frá Úrvinnslusjóði þýðir það að Íslendingar afskrá tæplega fjögur ökutæki til úrvinnslu á hverri klukkustund miðað við átta stunda vinnudag fimm daga vikunnar.

Það eru sveitarfélög og þjónustuaðilar Úrvinnslusjóðs sem taka við úrsérgengnum ökutækjum á um 50 stöðum á landinu en flest ökutækjanna fara til frekari endurnýtingar og endurvinnslu erlendis.

Meðalaldur ökutækja sem fóru í úrvinnslu og greitt var skilagjald af á árinu 2005 var 14,53 ár, 2006 er meðalaldurinn 14,29 ár og árið 2007 13,88 ár. Þannig hafa ökutæki sem skilað var til úrvinnslu á árinu 2007 að jafnaði farið á götuna árið 1994 en samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu voru nýskráð ný ökutæki það ár 6.710. Af því má álykta að skil ökutækja til úrvinnslu séu orðin nokkuð góð, segir í tilkynningu Úrvinnslusjóðs.

„Ljóst er að ökutækjum sem skilað er til úrvinnslu á eftir að fjölga verulega á næstu árum, þar sem innflutningur hefur aukist mjög á síðustu árum. Sem dæmi má nefna að á síðastliðnu ári voru nýskráð ný ökutæki hjá Umferðarstofu 24.800, á móti 12.511 tíu árum áður, 1997," segir enn fremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×