Innlent

Skiptahlutur hjá Samvinnutryggingum rýrnar vegna hlutabréfa

MYND/Stöð 2

Enn dregst á langinn um óákveðinn tíma að endurgreiða um 40 þúsund tryggingatökum í Samvinnutryggingum eignarhlut þeirra í félaginu. Á meðan rýrnar skiptahluturinn vegna hlutabréfakaupa og lækkunar á verðbréfamarkaði.

Þegar Samvinnutryggingum var slitið í fyrrahaust var ákveðið að stofna hlutafélagið Gift um eignir og skuldir félagsins og greiða tugum þúsunda tryggingataka, sem tryggðu hjá félaginu á tilteknum tímabilum á síðustu öld, út eignarhlut þeirra, um 20 milljarða króna.

Það átti að gerast í október en hefur ekki verið gert enn. Hins vegar keypti Gift hlutabréf í Kaupþingi banka þann 10. desember fyrir um 20 milljarða króna og hefur sá hlutur rýrnað um tæpa tvo milljarða síðan fyrir utan rýrnun á eignarhlut félagsins í Exista, sem lækkað hefur mikið upp á síðkastið.

Að sögn Benedikts Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Gifts, hefur reynst mun erfiðara að reikna endurgreiðslurnar út en reiknað var með, og það geti enn tekið nokkrar vikur eða jafnvel einn til tvo mánuði. Engin dagsetning lægi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×