Innlent

75 milljóna króna verkefni í Eþíópíu

MYND/AP

Hjálparstarf kirkjunnar og Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafa ákveðið að verja sameiginlega 75 milljónum íslenskra króna til þriggja ára verkefnis í einu fátækasta héraði Eþíópíu, Jijiga.

Eftir því sem fram kemur á vef Hjálparstarfs kirkjunnar er um að ræða stærsta verkefni sem kirkjan hefur ráðist í á þessu sviði. Þróunarsamvinnustofnun leggur til 60 prósent fjárins og Hjálparstarf kirkjunnar 40 prósent og verður verkefni þróað og undirbúið í nánu samstarfi við íbúa.

Í Jijiga-héraði í austurhluta landsins búa um 230 þúsund manns. Markmið verkefnisins er að tryggja íbúum þar aðgang að hreinu vatni til neyslu, ræktunar og skepnuhalds, að styrkja landbúnað með bættum ræktunaraðferðum og efla skepnuhald, að efla efnahagslegt öryggi og réttindi kvenna, að stofna heilsugæslustöðvar og fræða íbúa um HIV og alnæmi og að styrkja innviði og stjórnkerfi samfélagsins.

Bent er á á vef Hjálparstarfs kirkjunnar að Eþíópía sé sjötta fátækasta land heims með um 74 milljónir íbúa. Einungis þriðjungur landsmanna hefur aðgang að hreinu vatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×