Innlent

Fjöldi ökumanna skeytti engu um stórslasaðan mann við þjóðveginn

Andri Ólafsson skrifar
Það var rétt sunnan við Borgarfjarðarbrú sem karlmaður á áttræðisaldri slasaðist illa í dag.
Það var rétt sunnan við Borgarfjarðarbrú sem karlmaður á áttræðisaldri slasaðist illa í dag.

Karlmaður á áttræðisaldri slasaðist illa um klukkan hálf fjögur í dag þegar hann datt fram fyrir sig. Maðurinn var á gangi skammt sunnan við Borgarnes og náði ekki að bera hendur fyrir andlit sitt. Hann hlaut nokkra stóra skurði til að mynda á enni, við auga og á nefi. Honum blæddi mikið.

Hann reisti sig þó við og gekk vankaður út að þjóðveginum rétt sunnan við Borgarfjarðarbrú. Þar keyrði fjöldinn allur af ökumönnum fram hjá honum og létu hann afskiptalausan þar til tveir menn stöðvuðu loks skömmu síðar og athuguðu með hann.

Þeir hringdu á lögreglu sem kom að vörmu spori og flutti manninn á heilsugæslustöðina í Borgarnesi. Þar var ákveðið, í ljósi alvarleika þeirra áverka sem maðurinn hlaut, að flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík.

Lögregluvarðstjóri í Borgarnesi sem Vísir ræddi við í dag átti varla orð yfir tillitsleysi allra þeirra ökumanna sem keyrðu fram hjá stórslösuðum manninum í dag. En áverkar mannsins, sem er rúmlega sjötugur, eru þess eðlis að hann þurfti að komast undir læknishendur sem allra skjótast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×