Enski boltinn

Hverjir fá tækifæri hjá Capello?

Elvar Geir Magnússon skrifar

Fyrsti leikur enska landsliðsins undir stjórn Fabio Capello verður gegn Sviss þann 6. febrúar. Fróðlegt verður að sjá hvaða leikmenn munu hljóta náð fyrir augum þess ítalska.

The Sun tók saman nöfn ellefu ungra leikmanna sem gætu fengið tækifæri hjá Capello.

Joe Hart, Manchester City, markvörður

Þessi tvítugi strákur ýtti Andreas Isaksson á bekkinn og er aðalmarkvörður City. Hann á átta U21 landsleiki að baki og ekki langt þangað til við fáum að sjá hann með A-landsliði Englands.

Scott Carson, Aston Villa, markvörður

Hann átti sök á fyrsta marki Króatíu í leiknum sem skemmdi EM-draum Englands. Þrátt fyrir það er hann talin ein bjartasta markmannsvon Englands. Hefur leikið vel fyrir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni.

Leighton Baines, Everton, varnarmaður

Þessi vinstri bakvörður Everton hefur staðið sig vel síðan hann var keyptur frá Wigan síðasta sumar. Þar sem Ashley Cole hefur skort stöðugleika síðasta ár er ekki ólíklegt að Baines fái tækifærið.

Nedum Onuoha, Manchester City, varnarmaður

Hefur vart stigið feilspor hjá City á tímabilinu. Hann lék sinn fyrsta leik aðeins sautján ára tímabilið 2004-05 og var með fyrirliðabandið í deildabikarleik gegn Bristol City síðasta tímabil. Hann er fastamaður í U21 landsliðinu.

Steven Taylor, Newcastle, varnarmaður

Þrátt fyrir að Newcastle hafi ollið vonbrigðum á tímabilinu þá hefur Steven Taylor staðið fyrir sínu. Getur leikið í öllum stöðum í vörninni og gæti það hjálpað honum að fá tækifærið. Á 23 landsleiki að baki fyrir U21 landsliðið.

David Bentley, Blackburn, miðjumaður

Hefur leikið virkilega vel síðan hann kom frá Arsenal í janúar 2006. Fyrst var talað um hann sem arftaka Dennis Bergkamp en tækifærin hjá Arsenal voru af skornum skammti. Bentley lék sinn fyrsta landsleik þegar hann kom inn fyrir Shau Wright-Phillips í leik gegn Ísrael í september.

James Milner, Newcastle, miðjumaður

Vængmaður sem hefur verið einn af fáum ljósum punktum hjá Newcastle á tímabilinu. Mikill liðsmaður með góða tækni og tilfinningu fyrir boltanum. Gæti veitt Joe Cole samkeppni um vinstri kantinn.

Gabriel Agbonlahor, Aston Villa, miðjumaður

Þessi 21. árs leikmaður hefur verið frábær á tímabilinu og er markahæsti leikmaður Villa með sjö mörk. Þegar hefur Fabio Capello lýst yfir dálæti sínu á leikmanninum og ekki ólíklegt að hann verði í hópnum gegn Sviss.

Ashley Young, Aston Villa, miðjumaður

Einn skemmtilegasti leikmaður enska boltans. Var keyptur fyrir háar fjárhæðir frá Watford fyrir ári síðan. Er í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Aston Villa. Var í enska landsliðshópnum gegn Rússlandi og Ísrael. Lék sinn fyrsta landsleik í vináttulandsleik gegn Austurríki.

Theo Walcott, Arsenal, sóknarmaður

Þessi eldsnöggi strákur var óvænt í landsliðshópi Englands á HM 2006. Hann lék þó ekkert á mótinu en enn er eru þó miklar væntingar til hans. Capello hlýtur að vonast til að Arsene Wenger fari að gefa honum stærra hlutverk í liðinu svo hæfileikar hans blómstri enn frekar.

James Vaughan, Everton, sóknarmaður

Bætti met Wayne Rooney þegar hann varð yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir Everton og þegar hann skoraði gegn Crystal Palace í apríl 2005. Hann var aðeins sextán ára og 271 daga gamall. Var valinn besti ungi leikmaðurinn hjá Everton á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×