Enski boltinn

Berbatov er leikmaður 20. umferðar

Elvar Geir Magnússon skrifar
Berbatov í leiknum gegn Reading.
Berbatov í leiknum gegn Reading.

Það var hreint ótrúlegur leikur um helgina þegar Tottenham vann Reading í tíu marka leik, 6-4. Búlgarski sóknarmaðurinn Dimitar Berbatov var sjóðheitur í liði Tottenham og skoraði fjögur af mörkunum.

Smelltu hér til að sjá myndband af leikmanni 20. umferðar - Dimitar Berbatov.

Berbatov verður 27 ára í lok mánaðarins en hann er talinn meðal bestu sóknarmanna Evrópu. Stórlið eins og Manchester United og Chelsea eru með hann á sínum óskalista. Margir spá því að Berbatov yfirgefi herbúðir Tottenham í þessum mánuði.

Sautján ára gamall fetaði Berbatov í fótspor föður síns þegar hann gekk til liðs við CSKA Sofiu í heimalandinu. Frammistaða hans þar vakti athygli þýska liðsins Bayer Leverkusen sem keypti hann í janúar 2001.

Berbatov fór rólega af stað í Þýskalandi en lét síðan heldur betur að sér kveða. Tottenham tók þá upp veskið og gerði Berbatov að dýrasta leikmanni Búlgaríu frá upphafi. Í sínum fyrsta leik í búningi Tottenham skoraði hann tvö mörk á jafnmörgum mínútum en það var í æfingaleik gegn Birmingham.

Á Englandi hefur Berbatov heldur betur slegið í gegn. Hann er fæddur markaskorari og hefur verið sérstaklega iðinn við að setja boltann í mark andstæðingana í Evrópukeppnum. Þá hefur hann skorað 39 mörk í 61 landsleik fyrir Búlgaríu.

Þess má til gamans geta að Berbatov er mikill aðdáandi mafíu-kvikmynda og lærði fyrst eitthvað í ensku af Godfather myndunum.

Fullt nafn: Dimitar Berbatov.

Fæddur: 30. janúar 1981.

Félög: CSKA Sofia, Bayer Leverkusen og Tottenham.

Númer: 9




Fleiri fréttir

Sjá meira


×