Innlent

Nemar í HR óánægðir með samnemanda sinn

Ræða Katrínar fer fyrir brjóstið á sumum nemendum Háskólans í Reykjavík.
Ræða Katrínar fer fyrir brjóstið á sumum nemendum Háskólans í Reykjavík.

Katrín Oddsdóttir, laganemi í Háskólanum í Reykjavík, vakti athygli síðastliðinn laugardag þegar hún hélt kraftmikla ræðu á mótmælafundi á Austurvelli. Þar fór Katrín ekki í grafgötur með álit sitt á núverandi ríkisstjórn og má segja að hún hafi boðað byltingu ef stjórnvöld taki sig ekki saman í andlitinu á næstunni. Á heimasíðu háskólans er frétt um framgöngu Katrínar og er ræðan meðal annars birt. Þetta eru sumir nemar skólans ekki ánægðir með og hefur verið stofnuð Facebook síða þar sem skólayfirvöld eru hvött til að taka fréttina af framgöngu Katrínar niður. Um hundrað manns hafa skráð sig á síðuna.

Yfirlýsing nemanna er hér fyrir neðan í heild sinni:

„Við, nemendur Háskólans í Reykjavík, skorum hér með á Háskólann í Reykjavík að fjarlægja ræðu Katrínar Oddsdóttur af heimasíðu Háskólans í Reykjavík. Lagarök í ræðu Katrínar sem flutt var 22.nóvember sl. eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum og langt frá því að vera í nokkru samræmi við það sem kennt er við skólann. Mikilvægt er svo laganámið og þá sérstaklega kennsla í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík haldi trúverðugleika sínum sem ,,metnaðarfullt og nútímalegt laganám" að skólinn fjarlægi frétt um ræðuhöld hennar af heimasíðu skólans. Að sama skapi finnst okkur með öllu óásættanlegt að Háskólinn í Reykjavík stæri sig af, á forsíðu heimasíðu skólans, ummælum Katrínar sem hótar ofbeldi og valdaráni í ræðu sinni. En þar kemst hún að sama skapi að þeirri niðurstöðu að valdarán sé ekki brot á lögum. Teljum við það skóla okkar ekki til sóma að fjalla um ræðu hennar á heimasíðu skólans og krefjumst þess að færslan verði fjarlægð."

Facebook síðan er hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×