Fótbolti

U-21 liðið tapaði í Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luka Kostic landsliðsþjálfari og Magnús Gylfason aðstoðarmaður hans.
Luka Kostic landsliðsþjálfari og Magnús Gylfason aðstoðarmaður hans. Mynd/E. Stefán

Ísland tapaði í dag fyrir Austurríki í undankeppni EM 2009 U-21 landsliða, 1-0.

Sigurmarkið skoraði Fränky Schiemer á sextándu mínútu leiksins.

Austurríki hefur leikið alla átta leiki sína í riðlinum og vann sex þeirra og gerði tvö jafntefli. Liðið var þegar búið að tryggja sér sigur í riðlinum og er með 20 stig.

Ísland er í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins með sex stig eftir sjö leiki. Liðið hefur unnið einn leik, gert þrjú jafntefli og tapað þremur.

Slóvakía og Belgía gerðu jafntefli fyrr í dag, 1-1, en fyrrnefnda liðið er í öðru sæti með níu stig og Belgar í því þriðja með átta.

Austurríki kemst áfram í umspilskeppni um laust sæti í úrslitakeppni EM sem fer fram í Svíþjóð á næsta ári.

Fjórtán lið komast í umspilið þar sem leikið verður um sjö laus sæti. Sigurvegarar tíu riðlanna komast áfram ásamt þeim fjórum liðum sem ná bestum árangri í öðru sæti.

Nú þegar er ljóst að liðið sem nær öðru sæti í riðli Íslands verður ekki í þeim hópi.

Kýpur er í neðsta sæti riðilsins með sex stig eftir sjö leiki, rétt eins og Ísland, en er með verra markahlutfall.

Austurríki hefur ekki tapað í tuttugu leikjum í röð undir stjórn þjálfarans Manfred Zsak sem gerði garðinn frægan með landsliði Austurríkis á HM 1990.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×