Enski boltinn

Venables gagnrýnir Berbatov harðlega

NordicPhotos/GettyImages

Terry Venables, fyrrum knattspyrnustjóri Tottenham, kennir framherjanum Dimitar Berbatov um þá staðreynd að Lundúnaliðið er jarðað á botni úrvalsdeildarinnar eftir skelfilega byrjun.

Berbatov hélt forráðamönnum Tottenham í gíslingu í sumar og talaði um að það væri draumur sinn að ganga í raðir Manchester United. Hann skipti að lokum um félag þegar hann var keyptur norður á 30 milljónir punda.

Venables, sem á dögunum neitaði tilboði um að taka tímabundið við Newcastle, segir að framkoma Búlgarans sé undirrót erfiðleika Tottenham.

"Berbatov sagði okkur ítrekað frá "draumi sínum" að fara til United. Fínt fyrir þig Dimi, þig dreymdi um hærri innistæðu á bankareikningnum þínum. En var Tottenham ekki með draum líka? Þú fékst það sem þú vildir, en eitruð nærvera þín kom illa niður á félaginu sem trúði á þig," var haft eftir Venables í The Sun í dag.

Hann segir líka að Tottenham hafi selt Robbie Keane of snemma til Liverpool - áður en félagið hafði tryggt sér mann til að fylla skarð hans.

"Þeir héldu að þeir væru að fá Andrei Arshavin, en þetta var klúður hjá stjórn félagsins. Það var klúður að leyfa báðum framherjunum að fara án þess að búið væri að tryggja kaupin á Arshavin," sagði Venables.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×