Enski boltinn

Grant vonast til að landa Anelka fyrir helgi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anelka fagnar marki í leik með Bolton.
Anelka fagnar marki í leik með Bolton. Nordic Photos / Getty Images

Avram Grant, stjóri Chelsea, sagðist í gær vonast til þess að ganga frá kaupum á Nicolas Anelka frá Bolton fyrir helgina.

Bolton hafnaði tilboði Chelsea upp á tólf milljónir punda, að því er talið. En Grant ætlar ekki að gefast upp og vonast til að hann verði orðinn leikmaður Chelsea áður en liðið mætir Tottenham á laugardaginn.

„Við vildum fá hann á mánudaginn og vona ég að við fáum hann fyrir laugardaginn," sagði Grant við blaðamenn eftir sigur Chelsea á Everton í undanúrslitum deildabikarkeppninnar í gær.

Chelsea vantar þrjá framherja eins og er en þeir Didier Drogba og Salomon Kalou eru nú með landsliðum sínum vegna Afríkukeppninnar og þá er Andriy Shevchenko meiddur.

Þá er aðeins Claudio Pizzarro eftir en hann og Shevchenko hafa samtals skorað fimm mörk í úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Anelka hefur hins vegar skorað ellefu mörk í 22 leikjum með Bolton á leiktíðinni. Hann skrifaði í ágúst síðastliðnum undir nýjan fjögurra ára samning við Bolton en hann kom þangað frá Fenerbahce í Tyrklandi í ágúst árið 2006 fyrir átta milljónir punda.

Anelka hefur lengi sagt að hann vilji spila í Meistaradeild Evrópu og er hann enn gjaldgengur í þá keppni á tímabilinu ef hann gengur til liðs við Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×