Innlent

Laugavegshúsin ekki á borð ráðherra fyrr en eftir tvær vikur

Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, segir tilmæli nefndarinnar um að húsin á Laugavegi 4 og 6 verði friðuð muni ekki koma inn á borð menntamálaráðherra fyrr en eftir tvær vikur. Á fundi nefndarinnar í gær var ákveðið að vinna að tillögu þess efnis að húsin verði friðuð og í því ferli felst meðal annars að gefa eigendum húsanna færi á því að gera athugasemdir við tilmælin. Þeir hafa tvær vikur til þess að bregðast við.

Aðspurður segir Nikulás Úlfar það rétt að hingað til hafi nefndin ekki litið á húsin sem „kandídata" í friðun. Nefndin hafi hins vegar ávallt lagt áherslu á verndun þessarar götumyndar. Boltinn hafi því verið hjá Reykjavíkurborg því henni hefði verið í lófa lagið að breyta skipulagi á svæðinu þannig að götumyndin myndi halda sér. Það væri hins vegar ekki á færi nefndarinnar að friða hvert einasta hús í tiltekinni götumynd.

„Borgin sinnti ekki beiðnum okkar um að fá að sjá það hús sem koma átti í staðinn og steig engin skref í þá átt að vernda götumyndina," segir Nikulás Úlfar. „Við sjáum svo bara myndir af þessu fyrirhugaða hóteli sem við teljum að myndi rýra verulega varðveislugildi Laugavegar 2 sem þegar hefur verið friðað." Hann segir að nefndin hafi því rætt málið á löngum fundi í gær og komist að fyrrgreindri niðurstöðu.

Aðspurður hvort skilja megi ákvörðun nefndarinnar sem viðbrögð við aðgerðaleysi borgarinnar í málinu játar Nikulás því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×