Enski boltinn

Hálfleiksræða Grant hafði mikið að segja

Elvar Geir Magnússon skrifar
Grant var ekki svona brosmildur í hálfleiksræðu sinni í gær.
Grant var ekki svona brosmildur í hálfleiksræðu sinni í gær.

Þýski miðjumaðurinn Michael Ballack hjá Chelsea segir að leikmenn liðsins hafi fengið að heyra það frá knattspyrnustjóranum Avram Grant í gær. Chelsea var undir í hálfleik gegn Fulham og lét Grant heldur betur í sér heyra í hálfleiknum.

Það virkaði vel því Chelsea vann leikinn á endanum með mörkum Salomon Kalou og svo frá Ballack úr vítaspyrnu.

„Það voru ansi mikil læti í hálfleiknum. Við þurftum á þessu að halda," sagði Ballack við The Sun. „Við máttum ekki halda þessari spilamennsku áfram og hlutunum var breytt fyrir seinni hálfleikinn."

Chelsea lék án lykilmanna eins og Frank Lampard, John Terry og Didier Drogba sem hafa átt við meiðsli að stíða. Þá eru Kalou, John Obi Mikel, Michael Essien og Drogba á leið í Afríkukeppnina.

„Við höfum misst og erum að missa marga leikmenn svo það er mikilvægt að komast í gegnum þetta erfiða tímabil og vera rétt við efstu liðin," sagði Ballack.

Ljóst er að Grant ætlar að fá nýja leikmenn í janúar og í gær lýsti Grant yfir dálæti sínu á sóknarmönnunum Nicolas Anelka og Dimitar Berbatov. Ekki er talið ólíklegt að annar þessara leikmanna komi til liðsins í janúar.

„Sóknarmenn okkar eru að standa sig vel. Shevchenko er farinn að líta mun betur út og Kalou skorar í nánast hverjum leik. Lið eins og Chelsea ætti samt að hafa fleiri sóknarmenn," segir Grant.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×