Enski boltinn

Ég er stærri - En Aron er víkingur

Ward skoraði með naumindum úr vítinu "umdeilda"
Ward skoraði með naumindum úr vítinu "umdeilda" NordicPhotos/GettyImages

"Ég hefði slegist við hann um að taka vítið," sagði Elliott Ward, leikmaður Coventry þegar hann var spurður út í orð félaga síns Arons Gunnarssonar á dögunum.

Aron lýsti því yfir fyrir skömmu að hann ætlaði sér að slást við Ward um að fá að taka næsta víti fyrir Coventry eftir að fyrrum West Ham manninum hafði brugðist bogalistin á punktinum í leiknum á undan.

Það fór svo að Coventry fékk einmitt víti í næsta leik á eftir og úr spyrnunni skoraði Ward og tryggði liðinu góðan 1-0 sigur á QPR. Spyrnan var ekki mjög örugg, en lak í netið.

"Ég var aldrei að fara að samþykkja að einhver annar tæki vítið en það sem Aron sagði nokkrum dögum áður var auðvitað sagt í gríni. Við gerðum grín að þessu og þegar við spjölluðum næst sagði ég Aroni að ég væri alveg til í að slást við hann um hvor okkar fengi að taka vítið. Ég er nokkuð stærri en hann, en hann er íslenskur víkingur og þeir eru sterkir," sagði Ward í viðtali á heimasíðu leikmannasamtakanna á Englandi.

"Okkur Aroni kemur vel saman og ég var feginn að sjá boltann fara í netið þó markvörðurinn næði að slæma hendi í boltann," sagði Ward.

Coventry situr sem stendur í áttunda sæti ensku B-deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×