Innlent

Gistinóttum fjölgaði um fjögur prósent í nóvember

MYND/Páll Bergmann

Gistinóttum á hótelum á Íslandi fjölgaði um fjögur prósent í nóvember síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður. Nýjar tölur Hagstofunnar leiða í ljóst að gistinæturnar voru rúmlega 75 þúsund í nóvember í fyrra en rúmlega 72 þúsund í nóvember 2006.

Gistinóttum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi og Suðurlandi, þó hlutfallslega mest á Norðurlandi eða um níu prósent. Á höfuðborgarsvæðinu var aukning gistinátta um 8 prósent, þar fóru gistinætur úr 55 þúsund í nærri 60 þúsund. Á öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum á hótelum í nóvember milli ára. Þannig fækkaði gisinóttum á Austurlandi úr 2.700 í 1.200, eða um 58 prósent.

Þegar horft er til fyrstu ellefu mánaða síðasta árs fjölgaði gistinóttum á hótelum um 13 prósent á milli ára. Þær voru rúm 1,1 milljón í janúar til nóvember árið 2006 en 1.250 þúsund á sama tímabili í fyrra. Fjölgun varð á öllum landsvæðum nema á Austurlandi. Mest fjölgaði á Suðurlandi, eða um 16 prósent, og á höfuðborgarsvæðinu um 14 prósent. Fjölgun gistinátta fyrstu ellefu mánuði ársins nær bæði til Íslendinga, 19 prósent, og útlendinga, 11 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×