Innlent

Verkalýðshreyfingin teymd á asnaeyrunum

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir verkalýðshreyfinguna hafa verið teymda á asnaeyrnunum í viðræðum við stjórnvöld um lausn efnahagsvandans. Mikil vinna hafi verið lögð í fundahöld um málið, en nú segist forsætisráðherra vandann leystan án þess að aðilar vinnumarkaðarins séu upplýstir um þá lausn.

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa verið í viðræðum við stjórnvöld um lausn vandans og einnig við Samtök atvinnulífsins, en atvinnurekendur og fulltrúar launþega hafa verið samstíga.

Forseti ASÍ segir tugi funda hafa verið haldna og bakland hreyfingarinnar hafi verið kallað til og í gærkvöldi hafi verið haldinn miðstjórnarfundur til að tryggja að allt væri tilbúið og klárt af þeirra hálfu en á þeim bænum hafi menn verið tilbúnir að taka þátt í að leysa vandann. Þeir hafi hins vegar ekki verið upplýstir um hver vandinn væri en að hann væri gríðarlegur.

Grétar segist ekki hafa hugmynd um hvort hægt sé að leysa vandann án samráðs við aðila vinnumarkaðarins því þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir vandanum. Aðspurður hvort hann ætti von á að funda með stjórnvöldum í dag sagði Grétar að það þyrfti mikið til til þess að verkalýðshreyfingin fundaði með stjórnvöldum. Hún hafi talið sig vera þátttakendur í aðgerðaáætlun til að leysa vandann en það hafi reynst einhver misskilningur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.