Enski boltinn

Skemmtilegasta tímabil úrvalsdeildarinnar?

Elvar Geir Magnússon skrifar

Sparkspekingar telja margir að yfirstandandi tímabil stefni í að verða það skemmtilegasta í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Blaðamenn The Sun tóku saman tíu rök fyrir því að það sé rétt.

10. Robinho

Ímyndið ykkur hvernig Manchester City væri ef Arabarnir hefðu fengið meiri tíma til leikmannakaupa fyrir tímabilið? Robinho var keyptur á lokadegi félagaskiptagluggans fyrir 32 milljónir punda og það ótrúlegasta er að hann virðist hverrar krónu virði.

9. Lokamínúturnar

Þegar hefur það gerst í sjö leikjum að sigurmarkið hefur komið í viðbótartíma. Í enn fleiri leikjum hafa úrslitin ráðist á lokamínútunum. Áhorfendum er ráðlagt að fara ekki fyrr af leikjum til að losna við umferðina.

8. Aston Villa

Talið var að Manchester City, Tottenham eða Portsmouth væru líklegustu liðin til að blanda sér í baráttuna við fjögur efstu liðin. Aston Villa hefur hinsvegar skellt sér í það hlutverk og ljóst að stóru liðin munu berjast um leikmenn eins og Ashley Young og Gabriel Agbonlahor.

7. Ofurinnköst Rory Delap

Þó að þú hrífst líklega ekki af leikstíl Stoke City þá er ekki hægt að neita því að innköstin frá Rory Delap eru gulls ígildi. Hann hefur lagt upp 7 af 13 mörkum Stoke með löngum innköstum. Arsenal var síðasta fórnarlamb.

6. Ódýru hetjurnar

Til hvers að eyða milljónum þegar þú getur fengið frábæra leikmenn á klink? Litla athygli vakti þegar Wigan fékk Amr Zaki á lánssamningi en í dag fylgjast stórliðin með hverju skrefi leikmannsins. Geovanni er endurfæddur hjá Hull eftir að hafa verið hent í ruslið hjá Manchester City.

5. Kaupæðið

Það hefur sjaldan verið jafn mikið líf á lokadegi félagaskiptagluggans eins og fyrir þetta tímabil. Það verður ekki minna fjör í janúar. Manchester City á botnlausan brunn af peningum, Harry Redknapp mun hrista upp í Tottenham og Newcastle þarf að styrkja sig svo fátt eitt sé nefnt.

4. Joe Kinnear

Þrátt fyrir að fá hundrað tilraunir til að giska á næsta stjóra Newcastle þegar Kevin Keegan hvarf á braut hefði enginn nefnt Joe Kinnear. Hann fékk misjafnar móttökur en hefur heldur betur látið til sín taka og ekki hikað við að rífa kjaft í fjölmiðlum.
3. Tottenham

Gamla góða Tottenham. Vonir eru fyrir tímabilið um bjarta tíma en svo reynast óveðursskýin á sínum stað. Byrjun liðsins var sú erfiðasta til þessa en Harry Redknapp er mættur og skútan er farin að stefna í rétt átt.

2. Harðari barátta á toppnum

Er Manchester United óstöðvandi? Nei langt í frá. Er útilokað að vinna Chelsea á Stamford Bridge? Ekki lengur. Fjögur efstu liðin eru sterkari en nokkru sinni fyrr. Það stefnir í jöfnustu toppbaráttu í langan tíma og jafnvel nýtt nafn í baráttuna?

1. Nýliðaveisla

Nýliðarnir eru heldur betur samkeppnishæfir og rúmlega það. Hver hefði ímyndað sér Hull með þetta mörg stig á þessum tíma? Rótgróin úrvalsdeildarfélög eru mætt í botnbaráttuna á meðan nýliðarnir eru heldur betur að standa sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×