Enski boltinn

Norris sektaður um fimm þúsund pund

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Norris í leik með Ipswich.
David Norris í leik með Ipswich. Nordic Photos / Getty Images

David Norris, leikmaður Ipswich, var í dag sektaður um fimm þúsund pund fyrir ósæmlega framkomu er hann fagnaði marki er hann skoraði gegn Blackpool í upphafi mánaðarins.

Norris lagði saman hendurnar eins og hann væri í handfjárnum til stuðnings við félaga sinn, Luke McCormick, sem nú afplánar sjö ára fangelsisdóm. Var hann dæmdur fyrir manndráp af völdum ölvunaraksturs.

McCormick var áður leikmaður Plymouth og var á leið heim úr brúðkaupi Norris er hann lenti í árekstri þar sem tveir bræður, sjö og tíu ára, létust.

Jim Magilton, stjóri Ipswich, var nærri búinn að reka Norris frá félaginu vegna málsins en hann baðst afsökunar og ákvað að áfrýja ekki kærunni.

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins sagði að hegðun Norris hefði lýst einstökum barnaskap og að hann hefði átt að gera sér grein fyrir afleiðingum hegðunar sinnar.

„Við höfum einnig tekið til greina aðgerðir Norris í kjölfarið á þessu er hann skrifaði foreldrum drengjanna afsökunarbeiðni og mætti persónulega fyrir nefndina til að biðjast afsökunar á athæfinu."




Tengdar fréttir

Leikmaður kærður vegna umdeildra fagnaðarláta

Enska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að kæra David Norris, leikmann Ipswich, fyrir ósæmilega hegðun í tengslum við fagnaðarlæti hans er hann skoraði í leik með félaginu fyrr í mánuðinum.

Markvörður dæmdur í sjö ára fangelsi

Luke McCormick, fyrrum markvörður enska B-deildarliðsins Plymouth, var í morgun dæmdur í 7 ára og fjögurra mánaða fangelsi fyrir að verða valdur dauða tveggja ungra drengja eftir að hafa ekið undir áhrifum áfengis.

Umdeilt fagn hjá leikmanni Ipswich

David Norris, miðjumaður Ipswich Town, hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir það hvernig hann fagnaði marki sínu um helgina. Hann lét sem hann væri í handjárnum en með því ætlaði hann að sýna fyrrum liðsfélaga sínum, Luke McCormick, stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×