Enski boltinn

Enskur knattspyrnumaður kærður vegna banaslyss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luke McCormick, markvörður Plymouth.
Luke McCormick, markvörður Plymouth. Nordic Photos / Getty Images

Luke McCormick, markvörður enska knattspyrnuliðsins Plymouth, hefur verið kærður fyrir að valda dauða tveggja ungra drengja með hættulegu aksturslagi.

McCormick ók undir áhrifum áfengis og bifreið hans var þar að auki ótryggð. Hinir látnu eru bræðurnir Arron og Ben Peak en þeir voru tíu og átta ára gamlir.

Faðir drengjanna, Philip, ók bílnum og er nú á sjúkrahúsi. Ástand hans er talið alvarlegt en þó ekki lífshættulegt. Hann er með beinbrot í hálfi og baki, brotin rifbein og bólgin lungu.

Áreksturinn átti sér stað klukkan 5.45 að morgni til í gær en feðgarnir voru á leið á Silverstone-kappakstursbrautina.

Móðirin, Amanda Peak, var ófær um að tjá sig sjálf á blaðamannafundi í gær en í yfirlýsingu frá foreldrum drengjanna sagði að fjölskyldan væri harmi slegin.

„Ekkert foreldri ætti að þurfa að upplifa þá martröð sem við höfum mátt gera. Ekkert mun bæta okkur þann missir," sagði í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×