Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sagði í þættinum Íslandi í dag í kvöld að Blaðamannafélag Íslands ætti að reka Reyni Traustason, ritstjóra DV, úr félaginu meðal annars vegna þeirra ummæla sem hann viðhafði um nafntogaða einstaklinga á upptöku sem birt var í Kastljósi í gær.
Kastljós birti upptöku af samtali Reynis og Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrum blaðamanns DV, um hvers vegna frétt Jóns hafi ekki verið birt í blaðinu. Reynir segir í upptökunni að stórir aðilar hafi komið í veg fyrir birtingu fréttarinnar á krafti fjármagns.
Valur Grettisson, blaðamaður á DV, sagði upp störfum í dag. Hann segist ekki geta starfað á fjölmiðli þar sem ritstjórinn lýgur og ritskoðar.
Í yfirlýsingu sem Reynir sendi frá sér fyrir stundu segist hann njóta fulls trausts stjórnar og framkvæmdastjórnar Birtíngs, sem gefur út DV, til áframhaldandi starfa sem ritstjóri blaðsins.
Ekki hefur náðst í Hrein Loftsson, aðaleiganda Birtíngs, vegna málsins í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.