Fótbolti

Ólafur: Ánægður með hugarfar leikmanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/E. Stefán

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari sagðist vera ánægður með sigur sinna manna gegn Möltu ytra í dag. Heiðar Helguson skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik.

„Við vorum með undirtökin lengst af í þessum leik," sagði Ólafur í samtali við Vísi. „Þeir náðu að setja smá pressu á okkur síðustu mínútur leiksins en annars vorum við betri í leiknum."

„Helst var að okkur gekk illa að skapa færi og þar með skora. Þetta mark sem þó kom var hálf klaufalegt af hálfu Maltverjanna. Við settum smá pressu á þá og þegar varnarmaður þeirra fór upp í skallaeinvígi skallaði hann boltann aftur fyrir sig. Þar var Heiðar og kláraði færið mjög vel."

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að hafa unnið leikinn. Maður á aldrei að geta sagt að maður eigi að vinna ákveðin lið en ég tel að við eigum að vera með betra lið en þeir. Hugarfarið hefur líka stundum verið rangt hjá leikmönnum fyrir slíka leiki en svo var ekki í dag. Ég var mjög ánægður með hugarfar leikmanna. Þetta var svo sem enginn glansleikur en það var mjög gott að leikmenn kláruðu verkefnið með sóma."

Nokkrir leikmenn sem fá tækifæri hafa fengið hjá landsliðinu að undanförnu fengu að spreyta sig í dag, svo sem Sölvi Geir Ottesen og Garðar Jóhannesson sem kom inn á sem varamaður.

„Ég var mjög ánægður með þeirra frammistöðu í dag. Þetta gaf ákveðna mynd af þeirra getu. Þeir stóðu sig vel."

Þann 21. nóvember í fyrra stýrði Ólafur sínum fyrsta landsleik er Ísland tapaði fyrir Danmörku ytra, 3-0, í lokaleik liðsins í undankeppni EM 2008. Ólafur segir að hann sé ánægður með sitt fyrsta ár í starfi en liðið hefur leikið tólf landsleiki á árinu sem er óvenjulega mikið.

„Heilt yfir hefur þetta gengið ágætlega, þó það séu alltaf einhverjir plúsar og mínusar. Ég tók þá ákvörðun þegar ég byrjaði að ég myndi prófa mikið af mönnum enda nokkur hundruð leikmenn sem eru gjaldgengir í landsliðið."

„Ég var ánægður með þá ákvörðun. Þó ég hafi vitað um getu margra knattspyrnumanna skiptir karakter og persónuleiki líka máli."

Og hann stefnir á að halda áfram á sömu braut á næsta ári. „Við munum halda áfram okkar vinnu og að byggja upp landsliðið. Það eina sem er ákveðið fyrir næsta ár eru fjórir leikir í undankeppni HM en nú förum við á fullt með að finna æfingaleiki sem ég tel mjög mikilvægan hluta af mínu starfi. Það eru margir leikmenn sem þurfa að fá að spila sem mest með landsliðinu og fá tækifæri til að sýna sig og sanna. Til þess eru æfingaleikir frábærir og alveg nauðsynlegir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×