Enski boltinn

Scolari: Ósáttir geta farið í janúar

NordicPhotos/GettyImages

Luiz Felipe Scolari, stjóri Chelsea, hefur lagt línurnar fyrir eigingjarna leikmenn sem eru ósáttir í herbúðum liðsins. Þeim er frjálst að fara frá félaginu í janúarglugganum.

Breskir fjölmiðlar gera því skóna að Nicolas Anelka sé farinn að óttast um fast sæti sitt í liði Chelsea nú þegar Didier Drogba er að koma til eftir meiðsli.

Scolari beindi orðum sínum ekki beint að Frakkanum, en ljóst er að hann hefur ekkert að gera við menn í liði sínu sem ekki eru tilbúnir að setjast á tréverkið endrum og eins.

"Ég vil að allir leikmenn mínir séu tilbúnir að spila fyrir Chelsea - hvort sem þeir eru í byrjunarliðinu eða ekki. Þetta er Chelsea, við erum lið - hópur. Ef menn eru ósáttir við hlutskipti sitt, geta þeir bara farið annað í janúar. Menn verða að skilja að þetta er hópvinna. Leikmenn sem eru hér fyrir til að þjóna eigin hag verða að leita annað," sagði Scolari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×