Enski boltinn

Ég ætti að hætta núna

Redknapp fagnar í leikslok í gær
Redknapp fagnar í leikslok í gær AFP

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, gat leyft sér að slá á létta strengi í gær eftir að liðið vann fimmta sigur sinn í sex leikjum síðan hann tók við.

Það er ekki á hverjum degi sem stjórar Tottenham ná að vinna sigur á Liverpool, en Redknapp hefur nú gert það tvisvar á nokkrum dögum síðan hann tók við. Liðið hefur unnið alla leiki sína nema einn - og það var jafntefli við Arsenal.

Stjórinn var að vonum ánægður eftir 4-2 sigur Tottenham á Liverpool í deildabikarnum í gær og sló á létta strengi við blaðamenn.

"Ég ætti að hætta núna - ég hef farið eins langt með þetta lið og ég get," sagði Redknapp léttur í bragði eftir sigurinn en skipti svo um gír.

"Þetta hefur verið frábær byrjun en þetta mun ekki halda áfram að eilífu. Menn verða að njóta þess á meðan það stendur yfir. Andinn er frábær hérna og strákarnir njóta þess til fullnustu. Allt verður auðveldara þegar menn eru á sigurbraut og því viljum við halda því áfram," sagði Redknapp í samtali við Sun í gær.

Hann sagði líka brandara í viðtali við BBC eftir leikinn í gær þegar hann var spurður út í framherjana sína þrjá - sem allir eru sjóðheitir um þessar mundir.

"Við erum búnir að skora 18 mörk í þessum fimm leikjum sem ég hef stýrt liðinu. Ég var að ráða Les Ferdinand hingað til að vinna með framherjunum og ég mun kenna honum um það ef þeir hætta að skora," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×