Innlent

Borgarráð vill lög til að banna nektardans

Vegas er til húsa á horni Frakkastígs og Laugavegar.
Vegas er til húsa á horni Frakkastígs og Laugavegar.

Borgarráð samþykkti sameiginlega tillögu á fundi sínum í dag þar sem skorað er á Alþingi að gera þær breytingar sem þarf á lagaumhverfinu til að koma megi í veg fyrir starfsemi veitingastaða sem bjóða upp á nektardans.

Á sama fundi voru teknar fyrir umsagnir um veitingastaðina Vegas og Óðal þar sem gefin er heimild til þess að staðirnir bjóði upp á nektardans. Borgarfulltrúar VG og Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu í borgarráði þar sem eindregið var lagst gegn því að heimila nektardans á fyrrgreindum veitingastöðum. Meirihlutinn í borgarráði felldi þá tillögu, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Svandísi Svavarsdóttur borgarfulltrúa VG.

Samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald veitir lögreglustjóri leyfi til reksturs veitingastaða í Reykjavík og skal hann leita umsagna, meðal annars frá Reykjavíkurborg. Í umsögn sinni á borgin að staðfesta hvort afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lúti að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segi til um.

Svandís Svavarsdóttir segir að í sameiginlegu tillögunni felist stórtíðindi. „Þetta eru stórtíðindi ef marka má fyrri umræðu hægri manna um nektardans og meint atvinnufrelsi tengt slíkri starfsemi," segir Svandís.

Ályktunartillagan er svohljóðandi:

Nýlegur úrskurður dómsmálaráðuneytisins varðandi nektardans á veitingastaðnum Goldfinger í Kópavogi vekur áleitnar spurningar um hvort 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, sem kveður á um bann við slíkri starfsemi, sé gagnslítil.

Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða.















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×