Fótbolti

PSV meistari - De Graafschap enn í fallhættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Vitesse brjóta hér á markaskoraranum Danko Lasovic í dag.
Leikmenn Vitesse brjóta hér á markaskoraranum Danko Lasovic í dag. Nordic Photos / AFP
PSV varð í dag hollenskur meistari í knattspyrnu fjórða árið í röð eftir 1-0 útisigur á Vitesse í dag.

Danko Lasovic skoraði eina mark leiksins á 47. mínútu en PSV hefði dugað jafntefli til að tryggja sér titilinn.

Ajax varð í öðru sæti deildarinnar með 69 stig, þremur á eftir PSV. Ajax vann í dag öruggan 5-1 sigur á Heracles.

Liðin í 2.-5. sæti taka þátt í umspili um eitt sæti í Meistaradeild Evrópu en PSV er með öruggan þátttökurétt í Meistaradeildinni.

Feyenoord lenti í sjötta sæti og verður því ekki með í Meistaradeildinni í haust. Ajax, NAC, Twente og Heerenveen taka þátt í umspilskeppninni.

Þau þrjú lið sem ekki komast í Meistaradeildina keppa í UEFA-bikarkeppninni.

Feyenoord á þó möguleika á að koma sér í UEFA-bikarkeppninna með sigri á Roda JC í úrslitum bikarkeppninnar. Annars tekur liðið þátt í umspilskeppni um þátttökurétt í Intertoto-keppninni.

Heerenveen vann í dag 5-0 sigur á Excelsior sem féll niður í neðsta sæti deildarinnar og féll um deild. Arnór Smárason kom ekki við sögu hjá Heerenveen í dag.

VVV Venlo bjargaði sér úr botnsæti deildarinnar og frá falli um stundarsakir að minnsta kosti með sigri á De Graafschap, 3-0. Arnar Þór Viðarsson lék allan leikinn með De Graafschap.

VVV og De Graafschap þurfa nú að fara í umspilskeppni ásamt sex liðum úr B-deildinni um tvö sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

AZ Alkmaar vann í dag 1-0 sigur á Sparta Rotterdam og varð í ellefta sæti deildarinnar. Aron Einar Gunnarsson kom ekki við sögu hjá AZ í dag.

Liðin í 11.-15. sæti þurfa ekki að taka þátt í neinni umspilskeppni nú að tímabilinu loknu sem og meistarar PSV og Excelsior sem er þegar fallið í B-deildina. Tímabilinu er því lokið hjá AZ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×