Enski boltinn

Málleysi Ramos gerði honum erfitt fyrir

Levy rak Ramos á innan við ári
Levy rak Ramos á innan við ári NordicPhotos/GettyImages

Daniel Levy stjórnarformaður Tottenham hefur látið í það skína að léleg enskukunnátta Juande Ramos hafi haft sitt að segja í þeim ólgusjó sem liðið gekk í gegn um í upphafi leiktíðar.

Tottenham hefur spilað tvo leiki síðan Harry Redknapp tók óvænt við liðinu um síðustu helgi og hefur þegar rakað inn fleiri stig og skorað fleiri mörk en í öllum leikjunum þar á undan.

Levy segist nú vera búinn að átta sig á því að hnökralaus samskipti séu nauðsynleg ef árangur á að nást, en hann þurfti mikið að tala við Ramos í gegn um túlk.

"Harry Redknapp er maður sem gott er að tala við og það er mjög nauðsynlegt. Ég hef lært það á síðustu árum að samskipti stjóra og leikmanna verða að vera hnökralaus og ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því hve mikilvægt það er," sagði Levy.

Hann segir að það hafi ekki verið auðvelt að reka Ramos, enda sé hann herramaður fram í fingurgóma.

"Stundum þarf maður að taka erfiðar ákvarðanir á skömmum tíma en maður verður að hugsa um það sem er félaginu fyrir bestu. Við vildum gefa Ramos góðan tíma en við urðum að gera eitthvað. Ramos tók þessu vel og er alltaf velkominn hér. Þetta gekk ekki upp hjá honum en ég veit að hann er góður þjálfari og á eftir að ná árangri," sagði Levy í samtali við Sky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×