Innlent

Settu á svið hópslys á Bláfjallavegi

Það leit út fyrir alvarlegt hópslys á Bláfjallavegi við Sandskeið í morgun þar sem strætó fór út af veginum þegar bílstjórinn reyndi að komast hjá árekstri við fólksbíl.

Hér var þó aðeins um æfingu að ræða hjá lögreglunemum í Lögregluskóla ríkisins. Alls taka 45 nemendur þátt í æfingunni, ýmist sem lögreglumenn eða slasaðir en í æfingunni er gert ráð fyrir að 18-20 manns hafi slasast í hinu sviðsetta slysi.

Auk lögregluskólans koma almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslan, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Rannsóknarnefnd umferðarslysa að æfingunni. Með henni á æfa viðbrögð og samvinnu lögreglunema við hópslysi. Eiga lögreglumenn á vettvangi að kalla á þær bjargir sem þeir þurfa, þar á meðal þyrlu, tækja- og sjúkrabíla og mann frá rannsóknarnefnd umferðarslysa.

Þetta er í fyrsta skipti sem slík æfing er haldin á vegum Lögregluskólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×