Lögreglustjórinn á Akranesi hefur ákært mann fyrir að aka alls 40 sinnum í gegnum Hvalfjarðargöng án þess að greiða gangagjald.
Eftir því sem fram kemur í dagbók lögreglunnar var málið dómtekið í síðustu viku. Þar segir einnig að í málinu reyni í fyrsta sinn á hegningarlagaákvæði en maðurinn er ákærður fyrir fjársvik og til vara nytjastuld. Fram til þessa hefur í þessum málum aðeins reynt á ákvæði umferðarlaga.
Dómur í málinu er talinn hafa fordæmisgildi, ekki síst í ljósi þess að brot af þessu tagi hafa verið algeng og oft um nokkrar fjárhæðir að ræða.