Fótbolti

Kanarnir eru hræddir við knattspyrnuna

Ruud Gullit
Ruud Gullit NordicPhotos/GettyImages

Ruud Gullit, fyrrum þjálfari LA Galaxy í Bandaríkjunum, segir að knattspyrna eigi sér ekki viðreisnar von þar í landi.

Hollendingurinn stýrði David Beckham og félögum í Galaxy í níu mánuði, en sagði svo af sér. Hann átti ekki gott samband við forseta félagsins og segist ekki hafa skilið undarleg vinnubrögð manna í MLS deildinni.

Hann segir að þó David Beckham hafi vissulega gert góða hluti við að koma íþróttinni á kortið, hafi það ekkert að segja.

"David er meira en knattspyrnumaður og hann hefur blásið nokkru lífi í þetta síðan hann kom til Bandaríkjanna. Bandarísk knattspyrnuyfirvöld eru hinsvegar hrædd um að íþróttin verði stærri en vinsælustu greinarnar í landinu. Ég leyfi mér að efast um að þeir vilji í raun og veru gera fótboltann stærri, því vinsældir hafnarbolta, ruðnings og körfubolta virðast hafa dvínað nokkuð. Ég held að þeir vilji halda fótboltanum í skefjum," sagði Gullit í samtali við Reuters.

Hann segist sjá eftir því að hafa tekið við liði Galaxy á sínum tíma og segir aðstæður til að spila góðan fótbolta gríðarlega erfiðar í Bandaríkjunum.

"Ég sé eftir þessu, nú þegar ég sé um hvað þetta snýst. Ég hefði ekki tekið við liðinu ef ég hefði séð það fyrir. Reglur hérna og vinnubrögð eru svo ólík því sem gengur og gerist í Evrópu og það getur verið svekkjandi. Deildin hérna er ágæt en ferðalögin og leikirnir í þessum mikla hita og raka taka gríðarlegan toll af leikmönnum," sagði Gullit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×