Fótbolti

Boltavaktin: Ísland - Makedónía

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Leik Íslands og Makedóníu verður í beinni lýsingu á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins en leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður á Laugardalsvelli.

Hægt er að fylgjast með gangi mála með því að smella á viðkomandi hlekk á Miðstöð Boltavaktarinnar eða á forsíðu íþróttavefs Vísis.

Um er að ræða fjórða leik Íslands í undankeppni HM 2010 og þann síðasta á þessu ári. Ísland fékk eitt stig út úr útileiknum gegn Norðmönnum í fyrstu umferðinni en tapaði svo fyrir Skotlandi og Hollandi.

Ísland er því með eitt stig en getur með sigri í kvöld lyft sér upp í fjögur stig og þar með annað sæti riðilsins, svo lengi sem Holland vinnur Noreg í kvöld.

Makedónía byrjaði á því að leggja Skota á heimavelli og tapaði svo naumlega fyrir Hollandi, 2-1. Makedónar eiga því möguleika á því að koma sér í sex stig í kvöld og verður væntanlega allt lagt í sölurnar til að það takist.

Ísland verður hins vegar að fá öll þrjú stigin sem í boði eru í kvöld ef það ætlar sér að halda í við hin liðin í riðlinum. Annað er einfaldlega ekki í boði. Samkvæmt styrkleikaröðun liðanna á þetta að vera mesta tækifæri íslenska liðsins að innbyrða sigur í riðlinum.

Ólafur Jóhannesson hefur tilkynnt byrjunarlið sitt og gert eina breytingu á liðinu frá tapleiknum gegn Hollandi um helgina. Grétar Rafn Steinsson, sem meiddist á æfingu á föstudaginn, er heill á ný og kemur inn í stöðu hægri bakvarðar í stað Ragnars Sigurðssonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×