Innlent

Vill að allur fiskur verði vigtaður hérlendis

Gunnar Bragi Guðmundsson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir samtökin vilja að allur fiskur verði vigtaður hér á landi áður en hann er fluttur út. Hann gefir lítið fyrir þau rök sjávarútvegsráðherra að aukning á útflutningi óunnins botnsfisks skýrist að mestu af aflaaukningu á ýsu.

Um 11 prósenta aukning varð á útflutningi á óunnum botnfiski fyrstu fjóra mánuði þessa fiskveiðiárs miðað við síðasta fiskveiðiár. Þar munaði mest um aukningu á útflutningi á óunninni ýsu sem nam 32 prósentum og þorski sem nam 13 prósentum.

Eins og við greindum frá í fréttum okkar í gær þá hefur starfsgreinasambandið gagnrýnt að kvótaálag sem lagt var á útfluttan óunninn fisk hafi verið afnumið um svipað leiti og þorskkvótinn var skertur. Það hafi leitt til þessarar aukningar sem síðan bitni á starfsfólki í fiskvinnslu hér á landi. Sjávarútvegsráðherra sagði í fréttum okkar í gærkvöldi að líta þyrfti á málið í stærra samhengi og ef tölur frá árinu 2005 væru bornar saman við tölur frá árinu 2007 kæmi í ljós að ekki væri um eiginlega aukningu að ræða milli þessa ára, ef frá er talin útflutningur á óunninni ýsu sem jókst á þessum tíma. Það skýrðist að mestu á aflaaukningu á ýsu.

Gunnar bendir á að útflutnignur á óvigtuðum óunnum fiski hefur aukist mikið síðan kvótaálagið var afnumið. Ef skoðaðar eru tölur Fiskistofu sést að að heildarútflutningur á óvigtuðum óunnum botnfiski hefur aukist um tæp 2600 tonn eða 32 prósent. Þar nemur aukningin á þorski 674 tonnum eða 73 prósentum og ýsu um 1460 tonn eða 43 prósentum

Sjávarútvegsráðherra setti á laggirnar nefnd sem á skoða hvernig unnt er að halda fiskinum í landi. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun nefndin skila tillögum sínum í lok þessa mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×