Fótbolti

Tímabilið líklega búið hjá Bjarna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór og Bjarni Þór Viðarssynir eftir leik með U-21 landsliðinu.
Davíð Þór og Bjarni Þór Viðarssynir eftir leik með U-21 landsliðinu.

Allar líkur eru á því að Bjarni Þór Viðarsson geti ekki æft eða spilað meira með hollenska úrvalsdeildarliðinu Twente á tímabilinu vegna meiðsla.

Bjarni meiddist í gær í leik með varaliði Twente gegn varaliði Utrecht. „Völlurinn var mjög illa farinn," sagði Bjarni í samtali við Vísi. „Ég lenti í holu og heyrði smell í hnénu. Það eru líkur á því að liðband í hnénu er slitið og það myndi þýða tveggja mánaða fjarveru."

Hann mun þó fara í myndatöku á morgun og kemur þá betur í ljós hversu alvarleg meiðslin eru.

„Ég vona að ég verði alla vega orðinn góður þegar undirbúningstímabilið hefst í sumar en það er nú hvort eð er lítið eftir af þessu tímabili."

Hann var keyptur til Twente í janúar síðastliðnum frá Everton í Englandi. Bjarni hefur þó enn ekki fengið að spreyta sig með aðalliði Twente.

„Það var svo sem viðbúið að það yrði erfitt að komast beint í liðið en Twente er í fjórða sæti í deildinni og með hörkugott lið. Ég vissi að ég var keyptur með það í huga að ég kæmi meira við sögu á næsta tímabili," sagði Bjarni. „Ég er því ekkert stressaður og tel mig eiga góðan möguleika á næsta tímabili."

Bróðir hans, Arnar Þór, er einnig á mála hjá Twente en hann hefur verið á láni hjá úrvalsdeildarliði De Graafschap allt þetta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×