Innlent

Búast við svörum frá ríkisstjórn í dag

Tíminn er að renna út hjá aðilum vinnumarkaðarins til að ná samningum án milligöngu ríkissáttasemjara. Forystumenn Alþýðusambandsins funduðu í morgun en þar á bæ bíða menn enn svara frá ríkisstjórninni um mögulega aðkomu hennar að gerð kjarasamninga, og er búist við svörum í dag.

Nú eru fjórar vikur liðnar frá því forystumenn Alþýðusambands Íslands gengu á fund forystumanna ríkisstjórnarinnar og kynntu fyrir þeim hugmyndir ASÍ um aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Fyrri kjarasamningar unnu úr gildi um áramótin og nú er hver að verða síðastur vilji menn að samkomulag náist um ramma utan um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Alþýðusambandið leggur til ýmsar aðgerðir að hálfu stjórnvalda sem í heildina munu kosta ríkissjóð um eða yfir tuttugu milljarða króna. Þar munar mest um tillögu ASÍ um sérstakan tuttugu þúsund króna persónuafslátt til fólks með tekjur á bilinu 150 til 300 þúsund krónur á mánuði, en sú tillaga ein myndi kosta ríkissjóð um 14 milljarða króna á ári.

Ef ríkisstjórnin kemur ekki nægjanlega til móts við kröfur Alþýðusambandsins er ljóst að ekkert samkomulag um almennar viðmiðanir í kjarasamningum mun liggja fyrir og viðræður verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda gætu reynst flóknari.

Formenn aðildarfélaga Alþýðusambandsins funduðu í morgun, þar sem farið var yfir stöðu mála. Þar á bæ eru menn farnir að mæla frest ríkisstjórnarinnar til viðbragða í klukkustundum en ekki dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×