Innlent

Vöruskiptahallinn eykst á milli ára

Vöruskipti við útlönd reyndust neikvæð um 22 milljarða króna fyrstu tvo mánuði ársins samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Það er töluvert meira en á sama tíma í fyrra þegar vöruskiptahallinn reyndist 8,3 milljarðar á sama gengi. Þar munar því nærri 14 milljörðum. Alls voru fluttar út vörur fyrir tæpa 44 milljarða í janúar og febrúar í ár en inn fyrir um 66 milljarða. Þegar aðeins er horft til febrúarmánaðar reyndist vöruskiptahallinn neikvæður um 12,5 milljarða. Til samanburðar voru vöruskiptin óhagstæð um 5,5 milljarða króna í sama mánuði í fyrra.

Fyrstu tvo mánuði ársins 2008 var verðmæti vöruútflutnings 8,9 milljörðum eða 17 prósentum minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 45 prósenta alls útflutnings og var verðmæti þeirra 7,6 prósentum minna en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 49 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 0,3 prósentum meira en árið áður. Mestur samdráttur varð í útflutningi skipa og flugvéla en einnig dróst útflutningur á áli saman.

Þegar horft er til innflutnings var verðmæti hans 4,7 milljörðum eða 7,7 prósentum meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í innflutningi á fólksbílum og eldsneyti og smurolíu en á móti kom samdráttur í innflutningi á flugvélum og fjárfestingavöru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×