Innlent

Útlit fyrir að kveikt verði í brennum

Útlit er fyrir að hægt verði að kveikja í flestum brennum á landinu þrátt fyrir vonskuveðrið sem spáð er að bresti á síðla gamlárskvölds.

Það er ekki glæsilegt útlit í veðurkortunum fyrir flugeldana annaðkvöld en þó er talið að brennufært verði á flestum stöðum. Strekkingsvindur verður þó víða á landinu á brennutíma. Helst eru blikur á lofti allra vestast á landinu og svo gæti farið að aflýsa þyrfti brennum á Snæfellsnesi og Reykjanesi - miðað við spána eins og hún lítur út í dag.

Áætlað er að kveikt verði í ellefu brennum í Reykjavík klukkan hálfníu annaðkvöld. Leiðindaveður verður á suðvesturhorninu á morgun en brennurnar ættu að sleppa til því búist er við að vindur aukist þegar líður á kvöldið og nái hámarki um og upp úr miðnætti þegar nýja árið gengur í garð. Stærstu brennurnar í Reykjavík verða við Ægisíðu, Geirsnef, Rauðavatn og í Gufunesi. Minni brennur verða síðan fyrir neðan Fossvogskirkjugarð, við Suðurfell, Leirubakka, Kléberg á Kjalarnesi, í Skerjafirði, vestan Laugarásvegar og sunnan Ártúnsskóla.

Kösturinn við Skildinganes í Skerjafirði stendur óhaggaður þrátt fyrir hvassviðrið sem þar geisaði. Kösturinn við Klébergsskóla á Kjalarnesi þar sem ekki var stætt í ofsaveðrinu hafði ekki dreifst um víðan völl, enda frekar lágur og í skjóli af vörubíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×